Fyrstu Crossfittararnir á Húsavík byrjuðu að æfa reglulega í „bílskúrsfíling“ fyrir nokkrum árum síðan í skemmu í Haukamýri og smám saman hefur fjölgað í hópnum. Í dag eru allt að 70 einstaklingar sem æfa íþróttina í gömlu síldarverksmiðjunni á Húsavík. Ásta Hermannsdóttir crossfitþjálfari er ein af frumkvöðlum greinarinnar á Húsavík en hún segir að það séu 40-50 einstaklingar sem eru að æfa mjög reglulega.

Sjá einnig: Metnaður lagður í Sumarfrístund yngstu barnanna

Crossfit er ein af þeim afþreyingarúrræðum sem boðið verður upp á í Sumarfrístund á Húsavík. Aðspurð um hvað standi til að bjóða krökkunum upp á segir Ásta að það sé ekki búið að endanlega negla það niður en það sé að komast mynd á prógrammið. „Þetta verða stutt námskeið en eflaust einhverjir dagar samt. Við verðum með tvo kennara, annars vegar hana Jónu Björk íþróttakennara og Arnór Ragnarsson. Ég reikna með að þetta verði fyrst og fremst sprell, leikur og þrautabraut en á sama tíma áhersla á að kenna krökkunum helstu grundvallarhreyfingar í crossfit og líkamsbeitingu,“ útskýrir Ásta. Hún segir mikilvægt að allir geti fundið sitt sport, líka þeir sem finni sig ekki í fótbolta og slíku. „Það er númer eitt, tvö og þrjú að reyna ná krökkunum sem ekki eru í öðrum íþróttum, að þeir geti vonandi fundið íþrótt fyrir sig. Að þetta opni dyr íþróttanna fyrir börnum sem annars myndu kannski ekki finna sig í íþróttum yfir höfuð. Það er okkar helsta markmið.“