Vill meira kjöt á beinið

Tillaga um gerð atvinnustefnu Norðurþings samþykkt samhljóða

Stjórnsýsluhús Norðurþings á Húsavík. Mynd/epe.

Á sveitarstjórnarfundi Norðurþings í vikunni var samþykkt samhljóða tillaga Helenu Eydísar Ingólfsdóttur, fulltrúa D-lista, um að hafin verði vinna við gerð atvinnustefnu Norðurþings. Helena tók til máls og benti á að þótt mikil vinna hafi verið lögð í atvinnuuppbyggingu á svæðinu undanfarna áratugi þá hafi sérstök stefna aldrei verið til.

„Á síðasta kjörtímabili urðu tímamót í atvinnulífi innan sveitarfélagsins þegar starfsemi hófst í kísilmálmverksmiðju PCC BakkiSilicon en líka í byggðaþróun þegar íbúum tók að fjölga á ný. Á þessum tímamótum er afar þarft að setja atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið til að treysta betur grunn atvinnulífsins og til frekari þróunar þess,“ sagði hún.

Tillagan var samþykkt samhljóða og tóku nokkrir fulltrúar til máls og lýstu yfir ágæti hennar. Bergur Elías Ágústsson, fulltrúi B-lista sagðist þó vilja sjá meira kjöt á beinið og gerir skýra kröfu um nákvæmlega tímasetta aðgerðaráætlun og leggur áherslu á að ábyrgð aðgerða verði algerlega skýr.

Silja Jóhannesdóttir, fulltrúi S-lista fagnar tillögunni og leggur til að við gerð atvinnustefnunar verði ekki aðeins horft til slíkrar vinnu í öðrum sveitarfélögum hér á landi heldur verði einnig horft út fyrir landsteinana. Hún bendir jafnframt á að samfélög víða um heim hafi tekið stakkaskiptum til hins betra eftir að hafa búið til vandaða stefnu í atvinnumálum og lagði áherslu á að atvinnustefna geti haft mikil áhrif á kolefnisfótspor samfélagsins.

Hjálmar Bogi Hafliðason, fulltrúi B-lista og Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, Fulltrúi V-lista tóku einnig til máls á fundinum. Hjálmar kallaði eftir marvissari vinnu varðandi áframhaldandi atvinnuuppbyggingu á Bakka og vildi skoða sameiningu atvinnuþróunarfélagana á svæðinu þ.e. Þingeyinga og Eyjafjarðar. Kolbrún Ada, lagði áherslu á að við áframhaldandi atvinnuuppbyggingu á Bakka yrði að forðast orkufrekan iðnað sem kallaði eftir frekari umdeildum virkjunarframkvæmdum; heldur horft til lítilla og millistórra fyrirtækja og nýsköpunar.

Tillöguna í heild sinni má lesa hér að neðan:

„Ég vil því leggja til að hafin verði vinna við gerð atvinnustefnu Norðurþings. Í þeirri vinnu verði horft til þess að gera aðstæður sem bestar til uppbyggingar atvinnulífs hvort sem er fyrir starfandi fyrirtæki og nýja starfsemi. Þá verði horft til áframhaldandi uppbyggingar á Bakka með tilliti til þess hvaða áherslur við viljum leggja í því að laða fyrirtæki þar að, hvers konar starfsemi hugnast okkur að verði staðsett þar o.s.frv. Þá tel ég rétt að hluti vinnunnar verði tillögur að aðgerðum til að ná þeim markmiðum sem sett verða fram í henni, vinnunni verði lokið á fyrri hluta ársins 2019 og verði nýtt sem stefnumarkandi áætlun inn í fyrirhugaða gerð nýs aðalskipulags Norðurþings.
Ég vil jafnframt leggja til að stefnumótunin verið á höndum byggðaráðs sem fer með atvinnumál.“