Virðing, vinátta og samheldni

Kristný Ósk og Davíð Atli skrifa um Framhaldsskólann á Húsavík

Kristný Ósk Geirsdóttir &

Davíð Atli Gunnarsson skrifa:


Kæru Húsvíkingar, nærsveitungar og aðrir íslendingar. Við sendum inn þessa grein í þeim tilgangi að vekja meiri athygli á viskubrunni sem staðsettur er hér á Húsavík. Að sjálfsögðu erum við að tala um framhaldsskólann okkar.

Framhaldsskólinn á Húsavík er staðurinn þar sem við höfum þroskast og við lærðum að vera meira sjálfstæð, þá bæði sem námsfólk og einnig í einkalífinu. Við höfum séð að fólk sem útskrifaðist úr skólanum hefur staðið sig vel í áframhaldandi námi og er á öllum mögulegum stöðum í atvinnulífinu.

Að geta stundað nám í heimabyggð eru forréttindi sem við erum fegin að við nýttum okkur. Með því var hægt að vera lengur heima með fjölskyldunni og jafnvel vinna með skólanum til þess að spara pening.

Framhaldsskólinn á Húsavík er vægast sagt með frábært starfsfólk. Yndislegustu manneskju í heimi, hana Gunnu húsvörð og svo eru kennararnir stútfullir af reynslu og eru alltaf til í að hjálpa okkur, líka utan skólatíma. Þetta eru mikil forréttindi sem eru ekki til staðar í stærri menntaskólum. Í skólanum þekkja allir alla og nándin er mikil sem gerir þetta að mjög heimilislegum og þæginlegum skóla.

Í skólanum okkar er leikfélagið Píramus og Þispa sem stendur fyrir leikriti skólaár hvert. Þá höfum við verið einstaklega heppin með gott samstarf við Leikfélag Húsavíkur varðandi húsnæði, en þau í LH hafa lánað okkur leikhúsið sem er ómetanlegt.

FSH eru líka í mjög góðu samstarfi við Völsung sem gerir íþróttafólki mögulegt að fá iðkun sína metna inn í skólanum.

Dillidagar eru skemmtivikan okkar í FSH. Þá er skólinn brotinn upp með því að skipta nemendum í lið sem keppa síðan í ýmsum þrautum. Í lok vikunnar er síðan árshátíðin okkar haldin.

Við vonumst innilega til þess að þeir sem eru í grunnskóla, þá sérstaklega Borgarhólsskóla og eru að spá í framhaldsnámi að hugsa um FSH sem raunhæfan kost því við viljum geta haft þann möguleika áfram að geta stundað menntaskólanám í heimabyggð. Við erum innilega þakklát fyrir tímann okkar í FSH og mælum því virkilega með því að innrita sig í nám við skólann.

Davíð Atli & Kristný Ósk